Alsírskt sjóvegabréf frá 12. júní 1778

Alsírska sjóvegabréfið – takmörkun á ferðafrelsi

Árið 1627 urðu þeir atburðir að sjóræningjar frá norðanverðri Afríku réðust á land sunnan- og austanlands og rændu fólki og færðu í þrældóm. Þessir atburðir hafa á Íslandi verið nefndir Tyrkjaránið, þó Tyrkir hafi þar hvergi nærri komið, heldur voru sjóræningjarnir annars vegar frá borginni Sale í Marokkó og hins vegar frá Algeirsborg í Alsír.

Talið er að hátt í 400 manns hafi þannig verðið teknir herfangi og boðnir upp á þrælamörkuðum. Íslendingar óttuðust mjög að atburðir þessir myndu endurtaka sig og reyndu að undirbúa landvarnir ef til frekari árása kæmi. Þannig var samþykkt á alþingi að Íslendingar skyldu eiga vopn til að verja landið og biðlað var til Danakonungs að herskip yrðu send til landsins til að verja það árásum, en viðbrögð urðu fremur lítil. Jafnframt var reynt að safna fé til að heimta fólkið til baka og tókst að koma 27 þeirra aftur til Íslands.

Dönum, sem öðrum þjóðum sem stunduðu siglingar um heimsins höf, var ljóst að nauðsynlegt væri að gera einhvers konar samninga við sjóræningjaþjóðirnar. Um miðja 18. öld gerði danska stjórnin samning við sjóræningjaríkin um að skip sem sigldu inn á Miðjarðarhaf skyldu hafa meðferðis sérstakt sjóvegabréf. Áttu skipin þá að gera farið ferða sinna í friði.

Vegabréfin voru í tvennu lagi. Efri hlutann átti að skera af bréfinu eftir áteiknaðri boginni línu og senda hann til sjóræningjaríkjanna, en eftirlitsmenn þeirra báru síðan hinn afskorna hluta saman við neðri hlutann sem skipið hafði meðferðis. Efri hlutann vantar á þetta bréf, en einnig hefur verið klippt upp í það til merkis um að bréfið væri fallið úr gildi. Það bréf sem hér er sýnt er frá 12. júní 1778.

Safnmark

  • ÞÍ. Rentukammerskjöl, Isl. Journ. VII, nr. 500.
  • ÞÍ. Teikningasafn 10-16-16.

Þjóðskjalasafn Íslands