Mynd að ofan: Grafskrift Maríu Pálsdóttur (1787-1859) frá Arngerðareyri. Hún var móðir Ásgeirs Ásgeirssonar eldri, kaupmanns á Ísafirði. (SkjÍs. 815/197).
Áður fyrr var dauðinn eðlilegur hluti af tilveru hvers manns. Andlát urðu yfirleitt innan veggja heimilisins og dauðastríðið var háð í baðstofunni innan um aðra heimilismenn. Einhverjir þeirra tóku að sér að veita hinum látna nábjargir og búa um líkið. Var það haft á líkbörum á köldum stað, t.d. skemmu eða öðru útihúsi. Sálmabók var lögð á brjóst hins látna og ljós látið loga á meðan líkið stóð uppi. Strax var farið í að útvega kistu og haldin sértök athöfn þegar hinn látni var kistulagður, yfirleitt þremur til fjórum dögum eftir andlátið. Ættingjar og nánir vinir voru viðstaddir kistulagninguna þar sem lesin var bæn, flutt stutt hugvekja og sungnir sálmar. Var viðstöddum yfirleitt boðið upp á kaffiveitingar og stundum brennivín.
Jarðarför fór fram fjórum til átta dögum eftir kistulagningu en gat þó dregist ef tíðarfar var slæmt. Athöfnin hófst með húskveðju á heimili hins látna og var kistan, gjarnan blómum skrýdd, látin standa í bestu stofu hússins. Presturinn flutti kveðjuorð, svokallaða húskveðju, og fór með bæn yfir kistunni en síðan var sunginn var sálmur og kistan því næst borin til kirkju. Athöfnin var að öðru leyti með svipuðum hætti og tíðkast í dag. Húskveðjan lagðist af um og upp úr miðri 20. öldinni þegar andlát færðust af heimilum yfir á stofnanir. Umbúnaður líksins og ýmsar ráðstafanir aðrar færðust þá jafnframt frá heimilismönnum í hendur starfsmanna stofnana og fyrirtækja.
Helstu heimildir um andlát fyrri tíma eru prestþjónustubækur og gögn yfirvalda (hreppstjóra og sýslumanna) sem höfðu það hlutverk að gera upp bú og eigur hins látna og gera ráðstafanir varðandi eftirlifendur. Þessi gögn eru varðveitt á Þjóðskjalasafni en á héraðsskjalasöfnum víða um land eru hins vegar varðveitt gögn og heimildir sem tengjast andláti og greftrunarsiðum, s.s. húskveðjur, líkræður, grafskriftir, grafljóð, sálmar og minningarkvæði.
Héraðsskjalasafnið Ísafirði