Dagskrá

Eftirtalin skjalasöfn verða með opið hús á skjaladeginum, eða bjóða upp á sýningar sem tengjast deginum.

Þjóðskjalasafn Íslands
Laugavegi 162, 105 Reykjavík

Þjóðskjalasafn Íslands verður með opið hús á lestrarsal safnsins. Þar verður tekið á móti gestum frá kl 14 – 16 á Laugavegi 162, laugardaginn 14. nóvember. Þar verður uppi farandsýning Danska Vestur-Indíafélagsins um vesturindísku eyjarnar og sýnd frumskjöl sem tengjast Hans Jónatan frá Djúpavogi og fleiri viðfangsefnum sem varða þema dagsins.

Fyrirlestrar

  • Kl 14:10 „Hans Jónatan: Þrællinn og skjölin“. Gísli Pálsson mannfræðingur flytur erindi um Hans Jónatan, strokuþrælinn sem varð bóndi og verslunarmaður á Íslandi.
  • Kl 14:40 „Í pelli og purpura. Íslenskur trúskiptingur í vörn og sókn í fáeinum skjölum“. Þorsteinn Helgason sagnfræðingur flytur erindi um Önnu Jasparsdóttur frá Vestmannaeyjum sem rænt var í Tyrkjaráninu og hneppt í ánauð í Barbaríinu.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar
Bjarnarbraut 4-6, 310 Borgarnes

Í tilefni norræna skjaladagsins verður Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar með opið hús í Safnahúsi, Bjarnarbraut 4-6, kl 11:00 um morguninn. Þar munu Sigríður Hjördís Jörundsdóttir og Halldóra Kristinsdóttir höfundar bókarinnar Utangarðs? Ferðalag til fortíðar flytja fyrirlestur og kynna bókina sem fjallar um utangarðsfólk á Vesturlandi og Vestfjörðum á 19. öld.

Héraðsskjalasafn Dalasýslu
Miðbraut 11, 370 Búðardalur

Allir eru velkomnir á dagskrá Héraðsskjalasafns Dalasýslu á Laugum í Sælingsdal sunnudaginn 15. nóvember kl 15:00. Enginn aðgangseyrir og tilvalið tækifæri til að sýna sig og sjá aðra. Sjá nánar.

Héraðsskjalasafnið Ísafirði
Safnahúsinu Eyrartúni, 400 Ísafjörður

„Ásýnd dauðans“ er yfirskrift sýningar sem Héraðsskjalasafnið Ísafirði verður með í tilefni af norræna skjaladeginum laugardaginn 14. nóvember. Yfirskrift skjaladagsins að þessu sinni er „Án takmarka“ („Gränslöst“) og mun skjalasafnið sýna skjöl og myndir er tengjast andláti og greftrun fyrr á tímum, s.s. húskveðjur, líkræður, grafskriftir og grafljóð. Þá verður einnig fjallað um þann sið sem tíðkaðist í hinum vestræna heimi á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar að fá ljósmyndara til að taka myndir af látunum ástvinum.

Sýningin er í Safnahúsinu við Eyrartún, Gamla sjúkrahúsinu, á Ísafirði og verður opin í nóvember á opnunartíma hússins, frá kl 13 til 18 á virkum dögum og kl 13 til 16 á laugardögum.

Héraðsskjalasafn Vestur-Húnavatnssýslu
Höfðabraut 6, 530 Hvammstangi

Engin dagskrá hjá okkur á sjálfan skjaladaginn, en dagbækur Rannveigar Líndal verðar hafðar til sýnis hjá okkur fram að jólum og lýsingar hennar á grænlensku jólahaldi verða uppskrifaðar á blöðum sem fólk getur tekið með sér.

Héraðsskjalasafn Svarfdæla
Ráðhúsi Dalvíkur, 620 Dalvík

Það verður hádegisfyrirlestur í Bergi á Dalvík þann 12. nóvember. Þar mun dr Sigurgeir Guðjónsson sagnfræðingur tala um förumenn á Íslandi á seinni hluta 19. aldar og fram á fyrstu ár 20. aldar.

Héraðsskjalasafnið á Akureyri
Brekkugötu 17, 600 Akureyri

Þann 2. nóvember var opnuð farandsýningin „Vér heilsum glaðar framtíðinni“ sem er hluti samnefndrar sýningar er opnuð var í Þjóðarbókhlöðu 16. maí s.l.

Sýningin er liður í því að minnast 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna á Íslandi. Hluti sýningarspjaldanna í Þjóðarbókhlöðu var prentaður sérstaklega og hafa söfn víðsvegar um landið fengið þau til afnota og búið til sýningar með eigin efni úr héraði. Að þessu sinni verður því bætt við skjölum úr geymslum Héraðsskjalasafnsins með efni sem tengja má sýningunni.

Sýningin er í húsi Amtsbókasafns og Héraðsskjalasafns í Brekkugötu 17, hún er opin mán-fös kl 10-19, lau kl 12-16 og stendur til 30. nóvember.

Héraðsskjalasafn Árnesinga
Austurvegi 2, 800 Selfoss

Sýningin „Konur á vettvangi karla“ opnaði 5. nóvember 2015 í Listagjánni, sem er í Bókasafni Árborgar. Sýningin stendur út nóvember og fjallar um stjórnmálaþátttöku sunnlenskra kvenna. Þar er bæði fjallað um konur sem fengu eða fengu ekki kosningrétt 1882, 1909 og 1915 og um fyrstu konurnar sem voru kosnar sem aðalmenn í hreppsnefndir eða sem oddvitar, þingmenn og ráðherrar.
Sýningargestir geta líka og kynnt sér starfsemi safnsins frá kl 10 til 14.