Hópmynd af börnum í Steinkirchen an der Traun

Kærleikur án takmarka – söfnun fyrir bágstödd börn í Austurríki

Mynd að ofan: Páll J. Árdal fékk senda hópmynd af börnum í Steinkirchen an der Traun. Með börnunum á myndinni er séra P.L. Bachleitner. Á bakhliðinni stendur: Þökk sé þér, heill sé þér, hjálpsami maður!

Í júlí 1920 birtist í íslenskum blöðum hjálparbeiðni frá prestinum P.L. Bachleitner handa bágstöddum börnum í Salzkammergut í Austurríki.

Af stað fór landssöfnun og rúmu ári síðar kom fram í blöðum að alls hafi safnast 12.020.- krónur hér á landi.  Söfnunarfénu var varið til þess að kaupa fatnað á klæðlítil börn og til styrktar á ýmsa lund í þorpum í Salzkammergut.  Um 700 börn nutu góðs af þessari söfnun.  Í blöðunum birtust einnig þakkir frá bæjarstjórnum í þorpunum Gmunden og Bad Ishl, en nokkur hluti söfnunarfjárins var afhentur til þessara þorpa beint, og miklar og góðar þakkir frá séra P. L. Bachleitner.

Þakkarskjalið frá Austurríki

Börnin í barnaskólanum í Vorchdorf bei Gmunden í Efra-Austurríki sendu Páli J. Árdal kennara á Akureyri þakkarskjal fyrir hans framlag.

Fram kemur að Páll J. Árdal kennari á Akureyri hafi óumbeðið safnað nær helmingi upphæðarinnar. Hann fékk því sérstakar þakkir og viðurkenningar sem sjá má á meðfylgjandi myndum.

Héraðsskjalasafnið á Akureyri