Listi með undirskrift Hans Jónatans

Hans Jónatan

Mynd að ofan: Listi yfir það sem til var af nauðsynjum í Berufjarðarverslun veturinn 1815. Nauðsynjar í þessu tilfelli voru meðal annars mjöl, salt, tré, steinkol, tunnur og járn. Hans Jónatan þáverandi assistent vottar með undirskrift sinni að rétt sé með farið.

Hans Jónatan var sannarlega maður margra heima. Hann fæddist 12. apríl 1784 og ólst upp sem þræll á dönsku eyjunni St. Croix í Karabíska hafinu (nú hluti af bandarísku Jómfrúareyjunum). Móðir hans hét Emilia Regina og höfðu foreldrar hennar verið flutt frá vesturhluta Afríku sem þrælar. Faðir Hans Jónatans var hvítur evrópskur karlmaður, sem lítil sem engin deili eru á. Emilia Regina eignaðist líka dótturina Önnu Maríu 4. janúar 1787, en örlög hennar eru ókunn. Fjölskyldan sem átti Emiliu og börn hennar var háttsett á eyjunni. Það voru hjónin Ludvik Heinrich Ernst og Henrietta Cathrina von Schimmelmann. Þau áttu sykurplantekru og Ludvik var auk þess landstjóri á St. Croix.

Schimmelmann-fjölskyldan flutti til Kaupmannahafnar árið 1787 og Hans Jónatan fór á eftir árið 1792. Þau bjuggu á Amalíugötu 23. Árið 1801 strauk Hans Jónatan að heiman og gekk í sjóherinn. Vitað er að hann barðist í hinum svokallaða Slaget på Reden 2. apríl 1801, en það var sjóorrusta við enska sjóherinn sem barðist við Dani í Napóleonstríðinu. Mánuði síðar lét krónprinsinn Hans Jónatan hafa bréf uppá að hann væri frjáls maður en ekki lengur þræll.

Henrietta Cathrina, sem þá var orðin ekkja, kærði Hans Jónatan fyrir að sinna ekki skyldum sínum á heimilinu og fyrir ýmsan þjófnað. Úr varð fjögurra mánaða réttarhald sem er svo til eina heimildin um líf Hans Jónatans. Þrætuefnið var hvort að Hans Jónatan væri þræll eður ei. Dómarar komust að þeirri niðurstöðu að Hans Jónatan væri ennþá eign Henriettu og hún mætti flytja hann aftur til Vestur Indía og selja hann. En er til átti að taka var Hans Jónatan hvergi að finna.

Ekki er vitað hvernig eða hvenær Hans Jónatan sigldi til Íslands, en árið 1815 var hann orðinn aðstoðarmaður Jóns Stefánssonar verslunarstjóra í Berufjarðarverslun. Hans Jónatan tók síðan við sem verslunarstjóri við andlát Jóns árið 1819. Reksturinn hefur ekki gengið sem skyldi því verslunin var tekin til skipta árið 1822 og Hans Jónatan lauk þar störfum árið eftir. Virðingargjörð á allri versluninni er rituð í dómabók sýslumannsins í Suður-Múlasýslu (ds. 2.-13. nóvember 1822) og er merkileg heimild um verslunarrekstur á svæðinu. Þetta er virðing á einum átta húsum og listinn yfir vörurnar er margar blaðsíður. Þar gefur að líta þrjár tegundir af sykri: pudder sukker, meles sukker og kandis sukker. Það er að segja púðusykur, hvítur sykur og kandís. Í stað þess vera við fyrstu stig sykurframleiðsunnar var Hans Jónatan nú kominn á hinn enda borðsins.

Virðingargjörð á Berufjarðarverslun

Virðingargjörð á Berufjarðarverslun, rituð í dómabók sýslumannsins í Suður-Múlasýslu árið 1822.

Hans Jónatan og Katrín Antonsdóttir frá Hálsi í Hamarsfirði giftust þann 28. febrúar 1820. Katrín tók upp eftirnafnið Jónatan. Þau bjuggu í factorshúsinu á Djúpavogi á meðan Hans Jónatan var ennþá verslunarstjóri, en síðan fluttu þau að leigujörðinni Borgargarði. Saman áttu þau tvö börn Lúðvík Stefán fæddan 26. maí 1821 og Hansínu Regínu fædda 4. ágúst 1824. Þau komst bæði á legg og út frá þeim eru margir afkomendur. Hans Jónatan dó skyndilega af slagi þann 18. desember 1827, 43 ára gamall. Í dánarbúinu er að finna það sem þau hjónin áttu við dánardægur hans. Þar er meðal annars kommóða, skrifpúlt, skápur, vefstaður, spegill og handkambur. Hjónin áttu barometer, sem er loftvog, kakelofn eða kamínu og hefur verið góð á köldum vetrarkvöldum og síðast en ekki síst fjólín eða fiðlu.

Uppskrift á dánarbúi Hans Jónatans

Uppskrift á dánarbúi Hans Jónatans.

Á sinni ævi hafði Hans Jónatan verið þræll, hermaður, verslunarmaður og bóndi. Hann hafði búið á plantekru í Karabíska hafinu, stórborg og litlu kauptúni á Íslandi. Það má með sanni segja að hann hafi farið yfir mörg mörk bæði landræðileg en einnig þau sem samfélagið ætlaði honum og hann sætti sig ekki við.

Heimildir

  • ÞÍ. Sýslumaðurinn í Suður-Múlasýslu. EA4/2, 2. Dóma- og þingbók, bls. 90.
  • ÞÍ. Sýslumaðurinn í Suður-Múlasýslu. ED2/3, 5. Dánarbú Hans Jonathan ds. 12. maí 1828.
  • ÞÍ. Sýslumaðurinn í Suður-Múlasýslu. SA/1, 8. Verslunarskjöl 1800-1816.
  • Gísli Pálsson, Hans Jónatan. Maðurinn sem stal sjálfum sér. Reykjavík: Mál og Menning 2014.

Þjóðskjalasafn Íslands