Stutta-Stína hét fullu nafni Kristín Petrína Jónsdóttir. Í viðtali við Hjört Þórarinsson sem birtist í Jólablaði Dags 1964 segist Stutta-Stína vera fædd 1881* að Neðra-Ási í Hjaltadal. Foreldrar hennar voru Guðbjörg María Tómasdóttir og Jón Jónsson sem hafði viðurnefnið Sælor. Foreldrarnir voru ekki gift en Kristín dvaldi með móður sinni þar til hún lést er Kristín var á níunda ári. Þá hefst hrakningasaga Stuttu-Stínu um Eyjafjörð og Þingeyjarsýslu.
Hún er send á Gloppu í Öxnadal og þaðan í Sælu í Skíðadal og lét illa af vistinni. Hún segist læra að lesa hjá ömmu sinni í Saurbæjargerði í Hörgárdal svo þar er hún vistuð einhvern tíma á æskuskeiði. Um fermingu er hún vistuð á Sökku í Svarfaðardal og fermist í Vallakirkju 2. júní 1894. Í prests-þjónustubók er skráður vitnisburður að hún lesi dável og kunni sínar bænir einnig dável, hegðun er ágæt en annað er heldur laklegt enda skólagangan engin.
Hún er vinnukona og kaupakona á mörgum bæjum í Svarfaðardal en einna lengst á Böggvistöðum eða í fjögur ár í kringum tvítugt. Á meðan hún dvelur á Þóroddstöðum í Ólafsfirði „lendir hún í kasti við ungan mann“ og eignast með honum son árið 1913 sem síðan var með móður sinni í einhvern tíma.
Í fyrrnefndu viðtali kynnir Hjörtur Þórarinsson hana þannig:
Hún kemur úr sinni sumarlöngu reisu um innsveitir Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslu vestanverða. Hún kemur fyrirvaralaust með pokana sína og töskur. Og þeir eru glettilega margir pokarnir hennar. Það veit sá er fengið hefur að selflytja Kristínu og farangurinn milli bæja. En þess er líka að gæta, að í þeim er geymd öll búslóð gömlu konunnar, rúmföt, klæðnaður, bækur, vekjaraklukka, næturgagn og fjöldinn allur af gjöfum sem ætlaðir eru til gjafa á hinum ýmsu bæjum sem ferðaáætlun hennar nær til.
Í lok viðtalsins sem er tekið fimm árum fyrir andlát Stuttu-Stínu rekur hún árlegar ferðir sínar:
Ég fer á sumrin inneftir öllu, inn í Uppsali og alveg fram í Æsustaði og austur í Yzta-Fell til Marteins míns og Köru, og á haustin fer ég úr í Hörgárdal, á Myrká og fleiri bæi, og svo er ég hér í Svarfaðardal á mörgum bæjum á veturna.
Margir minnast enn Stuttu-Stínu og tala um að sem börn hafi þeir verið varaðir við að ónáða hana, hún hafi haft ama af börnum.
Stutta-Stína lést 12. maí 1969 og var þá til heimilis á Skjaldarvík, en síðustu árin hafði hún verið heimilisföst á Ási á Þelamörk.
* Í Íslendingabók og prestþjónustubók er fæðingarár 1879, í Skrá yfir dána 1969 er það 1880.
Heimildir
- Hjörtur E. Þórarinsson (1964) „Síðasta förukonan“. Dagur jólablað 1964.
- Íslendingabók, https://www.islendingabok.is/.
- Hagstofa Íslands (1970) . Skrá yfir dána 1969.
Héraðsskjalasafn Svarfdæla