Helga Magnúsdóttir

Kvenskörungur frá Litlalandi

Kjör ljósmæðra á þessum tíma voru þau að vera til taks hvenær sem var, hvort sem var nótt eða dag, sumar eða vetur, í hvernig veðri sem var og ferðast langar leiðir, gangandi eða ríðandi.  Þá kom það sér vel, ef tilbúinn var hestur á gjöf.

Helga og fjölskylda

Hjónin Helga Magnúsdóttir og Einar Björnsson með börnum sínum Margréti og Magnúsi.

Til er saga af Helgu í starfi, en söguna segir eiginmaður Helgu, Einar Björnsson í viðtali árið 1969 og birtist í bókinni “Leiftur liðinna daga”:

Ég átti hest er Strákur hét og var mikið uppáhald á mínu heimili. Ég var aldrei svo illa hestaður, að ég tæki hann í smalamennsku og hlífði honum yfirleitt við vondri brúkun, en Helga mín reið honum mikið, en sjaldan þó illa. Þó bar einu sinni út af þessu, og ég held, að ég verði að segja ykkur ofurlitla ferðasögu, þar sem þau áttu samskipti Helga mín og Strákur. Þá vorum við í Laxnesi. Það er hringt til hennar um hávetur og miðja nótt austan úr Þingvallasveit og hún beðin að koma og taka á móti barni. Þetta var ekki í hennar umdæmi, en hún gegndi því, væri hún ekki upptekin annars staðar. Við klæðum okkur í snatri og svo er lagt á Strák handa henni, en ég legg á vel fóðraðan dráttarhest handa mér. En Strákur var alltaf vel undirbúinn. Hann var tekinn inn á haustin eins og kýrnar og gefinn matur og taða og það leið víst sjaldan sú vika, að hann væri ekki hreyfður. Svo ríðum við upp alla heiðina eins og ég þorði að leggja á dráttarhestinn, en ég var beðinn að koma á móti fylgdarmanninum. Á miðri Mosfellsheiði þar sem vötnum hallar mættum við honum. Hann er þar með tvo hesta, lítið fóðraða. Ég spyr hann, hvort hann vilji, að hún ríði hestinum sínum áfram og þiggur hann það. Svo segir ekki af ferðum þeirra annað en það, að þessa leið, sem eru 40 km, reið hún á 3 klukkutímum og kalla ég það vel af sér vikið um hávetur og miðja nótt á einum hesti og stíga þó af honum nokkurn veginn jafn góðum. Þegar á bæinn kom var engin manneskja til neins, fullt húsið af börnum og þarna verður hún að taka við húsmóðurstarfinu ásamt ljósmóðurstarfinu. Húsbóndinn reyndi að fá stúlku, en það vildi engin fara þangað, enda voru börnin ráðrík og fyrirferðamikil. Því til sönnunar má segja, að 5 ára gömul stelpa segir:” Það er áreiðanlegt, Helga, mér dettur ekki í hug að gegna þér”. En einhvern veginn fór það nú samt svo, að hún náði hylli barnanna og yfirráðum á heimilinu. Þegar hún var búin að vera þarna í viku, fer húsfreyjan að tala um það við bónda sinn, að hann verði að hafa einhver ráð með að taka þvottinn, en hann átti víst ekki gott um vik, en því til skýringar má segja að brunnurinn var þrotinn og ekkert vatn nema í Þingvallavatni, en þangað var hálftíma gangur aðra leiðina og ekkert um annað að gera en bræða snjó í öll vötn. Síðustu nóttina, sem hún er þarna, vakir hún og þvær allan þvottinn, ríður svo heim daginn eftir út yfir heiði í nokkuð miklum lausum snjó og reiðir töskuna. Slík voru hlutskipti íslenskra ljósmæðra fram yfir 1940. Seinna komum við á þetta heimili. Þá vorum við í skemmtiferð austur um sveitir með 4 gæðinga til reiðar. Hún ætlaði að líta aðeins inn til að sjá ljósubarnið sitt, en við vissum ekki fyrr en við vorum búin að standa við í 4 tíma. Slíkar voru viðtökurnar á þessu barnmarga einyrkjaheimili.

Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar