Bátar í brimi á Stokkseyrarsundi

Móðir náttúra

Þegar móðir náttúra er annarsvegar er best að hafa varann á, því þau öfl sem hún getur leyst úr læðingi virðist vera algjörlega án takmarka. Ófá stórviðrin hafa gengið yfir landið og miðin og nokkuð er til af frásögnum og heimildum um þau.

Brim við Stokkseyri

Föstudaginn 17. mars 1967 gerði slíkt foráttubrim við suðurströndina að annað eins hafði ekki sést í áratugi. Brimið var tilsýndar sem hvítur veggur, margra metra hár og hvergi glufu að finna. Stokkseyrarbátar fjórir lágu við bryggju, Hólmsteinn, Hásteinn, Fróði og Bjarni Ólafsson. Þeir voru 32 til 50 tonn að stærð. Smástreymt var og ekki hásjávað en ólögin fylgdu hvert öðru enda höfnin fyrir opnu hafi. Þegar heimamenn komu á vettvang á sjötta tímanum um morguninn gengu óbrotnir stórsjóir yfir bryggjuna sem var í kafi og Fróði þegar sokkinn og laskaður, enda mikið brotinn.
Með harðfylgi tókst mönnum að komast um borð í Hástein og Hólmstein en þegar reynd var uppganga í Bjarna slóst stefni hans upp á bryggjuna og urðu menn frá að hverfa. Skipti engum togum að báturinn slitnaði frá og rak upp í fjöru við kirkjugarðinn.

Flóð við Tryggvaskála á Selfossi

Flóðið u.þ.b. í hámarki. Bragginn við Tryggvaskála mikið skemmdur og vatnið nær upp að gluggum á Tryggvaskála. Ljósm. Tómas Jónsson.

Árflóð í Ölfusá

Ölfusá er vatnsmesta á landsins en sambýli Selfyssinga við Ölfusá hefur lengst af gengið stóráfallalaust. Þó hefur það komið fyrir að áin flæði umtalsvert yfir bakka sína. Stór árflóð hafa valdið Selfyssingum ama árin 1930, 1948 og 1968 auk smærra flóðs árið 2006. Flóðin í Ölfusá er ýmist svokölluð vetrar- eða haustflóð. Vetrarflóð verða þegar ís sem hrannast upp í Hvítá, þar sem hún rennur í þrengingum millli Brúnastaða og suðurenda Hestsfjalls, fer í leysingum að vetri til. Haustflóðin, sem eru fátíðari, verða þegar frostakafla gerir á haustin og jörð því vatnsheld. Þá bætast við snjóalög á öllu vatnasviði árinnar úr byggð og upp í afrétt Tungna- og Hrunamanna. Lægð með snöggri hitabreytingu, ofsaregni og sterkum vindi bætist svo við og flóð myndast.

Héraðsskjalasafn Árnesinga