Þó búið sé að smala sauðkindinni eftir sumardvöl á fjöllum, er enn eftir að koma hverri kind til síns heima. Þá taka við réttir, einn helsti hátíðisdagur til sveita frá fornu fari.
Annars vegar er réttað heima á bæjum og hins vegar í lögréttum. Lögrétt er sameiginleg rétt hverrar sveitar og þangað koma bændur með úrtíning (ókunnugt fé) og fé úr öðrum lögréttum. Réttað er að lokinni fyrstu leit og síðan er skilarétt að lokinni annarri leit. Lögréttir í Dölum eru Vörðufellsrétt, Ósrétt, Hólmarétt, Fellsendarétt, Kirkjufellsrétt, Gillastaðarétt, Skerðingsstaðarétt, Flekkudalsrétt, Skarðsrétt og Brekkurétt.
Réttarstjóri stjórnar réttarhaldi, hvenær rekið er inn í almenning, úrskurðar um vafamál og móðerni ómerkinga. Ekki er óalgengt að menn sinni störfum réttarstjóra í áratugi. En réttarstjórn er eitt af fáum óföllnum vígum karlmanna í Dölum.
Áður fyrr voru engar girðingar við réttir og voru þá vökumenn yfir safninu nóttina fyrir réttir. Ef þeir sofnuðu á verðinum gat þurft að byrja réttarhald á að smala safninu aftur saman. Réttarhald hófst síðan að morgni þegar markljóst varð. Er þá safnið rekið í áföngum í almenninginn og dregur hver sitt fé í sinn dilk. Ekki eru allir háir í loftinu þegar þeir byrja að hjálpa til við dráttinn. Í dag er flest fé keyrt heim úr réttum, en áður var allt fé rekið heim og náðu menn ekki alltaf að komast heim í björtu.
En þar sem sauðkindin þekkir ekki hreppamerki frekar en önnur merki þarf að sækja fé á milli hreppa og sýslna. Hluti dagsverka er að sækja utansveitarréttir. Auk þess að fara á milli rétta innan Dala, sækja Dalamenn réttir á Strandir, í Borgarfirði og Hnappadal.
Réttir eru líklega elstu samfelldu menningarsamkomur hérlendis og fyrr á öldum oft á tíðum þær einu veraldlegu í hverri sveit. Réttir eru einstakar samkomur. Sambland tilhlökkunar, eftirvæntingar, gleði og hátíðar, en ekki síst hörkuvinna.
Héraðsskjalasafn Dalasýslu