Halldór Laxness þakkar fyrir sig

Hátíðarhöld í Mosfellssveit í tilefni af Nóbelsverðlaunum Halldórs Laxness

Mynd að ofan: Halldór Laxness þakkar fyrir sig.

Þann 10. desember 1955 voru Halldóri Laxness veitt bókmenntaverðlaun Nóbels.
Mikið var um dýrðir þegar Halldór snéri aftur til sinnar heimasveitar. Laugardaginn 11. febrúar 1956 stóð Ungmennafélagið Afturelding fyrir blysför að Gljúfrasteini.  Gangan var mjög fjölmenn og mættu bæði ungir sem aldnir.

Heiðurshjónin Halldór og Auður ásamt gestum

Heiðurshjónin Halldór og Auður ásamt gestum.

Frá blysförinni í Mosfellsdalnum

Frá blysförinni í Mosfellsdalnum.

Í miðjum Mosfellsdal var kveikt á blysunum og þokaðist röðin upp dalinn.  Þegar fylkingin nálgaðist Gljúfrastein tóku menn að syngja ættjarðarsöngva undir stjórn Jóns Guðmundssonar frá Reykjum.  Halldór og fjölskylda hans tók á móti fólkinu, hélt formaður Aftureldingar Sveinn Þórarinsson í Hlíð ávarp, til heiðurs þeim hjónum Halldóri og Auði og hélt Halldór ræðu til fólksins.

Kæru sveitungar og vinir.

Ég þakka ykkur hjartanlega þann heiður, sem þið sýnið mér með heimsókn ykkar hingað í kvöld. Það er unaðslegt að eiga svona góða sveitunga og nágranna, sem eru tilbúnir að fagna með manni. Ég er jafnsamgróinn þessari sveit og þið, – samgrónari henni en flestir aðrir. Ég hefur verið Mosfellssveitarmaður síðan ég kom hingað þriggja ára gamall ríðandi á hnakkkúlunni fyrir framan föður minn. Þá var farið með sjónum og svo upp dalinn. Mér er sagt, að ég hafi spurt, þegar ég sá fellin hér í kring: – Hver hefur mokað þessa hóla? Það er þessi sveit, með sínum skemmtilegum hólum og dölum, sem ég hef fest rætur í. Ég hef eiginlega allaf átt hér heima. Móðir mín átti hér heima fram til 1930, en síðan komu nokkur ár í útlöndum. Og þegar ég fór að hugsa um að byggja kaus ég að setjast að einmitt hér í þessari sveit, meðal þessa göfuga fólks. Ég gæti ekki hugsað mér að eiga heima í nokkurri annarri sveit. Hér voru mínir æskuvinir, og margir þeirra eru nánir vinir mínir enn í dag. Og mér þykir sérstaklega vænt um æskulýðinn í þessari sveit. Það er mikill styrkur að eiga líka baksveit.  Það er unaðslegt að koma hingað heim utan úr heimi og njóta unaðar og friðar í þessari góðu sveit, hjá þessu glæsilega fólki. Þakka ykkur öllum hjartanlega.

Má ég svo biðja ykkur öll að hylla okkar kæru sveit með ferföldu húrrahrópi. Mosfellssveitin lengi lifi.

Húsið er opið. Gerið þið svo vel. (Skinfaxi 47 árg. 1956)

Lára Skúladóttir Norðdahl, prófastsfrú frá Mosfelli, flytur frumsamið ljóð til heiðurs Halldóri

Lára Skúladóttir Norðdahl, prófastsfrú frá Mosfelli, flytur frumsamið ljóð til heiðurs Halldóri.

Síðan var fólkinu boðið að ganga inn og þiggja veitingar. Svo fjölmenn var gangan að ekki komust allir inn í einu þannig að menn skiptust á að ganga í inn.

Ólafur Þórarinsson frá Varmalandi flytur ræðu

Ólafur Þórarinsson frá Varmalandi flytur ræðu.

Nokkrum dögum síðar héldu Mosfellingar samsæti í Hlégarði til heiðurs skáldinu. Þar var samankominn stór hluti íbúa sveitarinnar. Ræður haldnar, ljóð flutt og veitingar veittar.

Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar