Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari

Þrautseigja án takmarka

Mynd að ofan: Sigfús Sigfússon þjóðsagnaritari. Ljósmynd eftir Vigfús Sigurðsson (eftirtaka af filmu í eigu Ljósmyndasafns Austurlands).

Sigfús Sigfússon er þekktastur fyrir verkið Íslenskar þjóð-sögur og sagnir sem hann safnaði og skráði víða á Austurlandi. Þjóðfræðasafnið er langstærsta safn austfirskra þjóðsagna sem komið hefur út á prenti. En baráttan fyrir útgáfu var löng og ströng.

Sigfús Sigfússon fæddist á Miðhúsum í Eiðaþinghá 21. október 1855. Sigfús dvaldi víða á Héraði og í Fjörðum, þótti sjómaður góður og afburðasláttumaður. Við vinnu sína og á ferðalögum kynntist hann fólki sem kunni þá list að segja sögur, hvert á sinn hátt.

Haustið 1889 fór Sigfús í Möðruvallaskóla, var þá um tíu árum eldri en aðrir skólapiltar og útskrifaðist þaðan árið 1891. Eftir að Sigfús kom frá námi hætti hann að ráða sig í ársvistir, sinnti barnakennslu á vetrum og daglaunavinnu á öðrum árstíma. Jafnhliða vann hann að þjóðsagnasöfnuninni hvenær sem tími gafst, bar með sér ritföng á engjar þar sem hann var í kaupavinnu og notaði stopular hvíldarstundir til ritstarfa. Hann ferðaðist einnig um, safnaði þjóðsögum og sögnum frá fólki sem mælti þær af munni fram og ritaði í bækur sem hann geymdi í pokaskjatta og bar á bakinu milli staða.

Árið 1906 hófst áralöng barátta Sigfúsar fyrir því að koma safninu á prent. Um haustið fór Sigfús til Akureyrar og afhenti Oddi Björnssyni ritsafnið en svo fór að Oddur hætti við að gefa það út. Sigfús vann áfram að því að safna þjóðsögum og stækkaði safnið ört með hverju ári. Einnig var í umræðunni að danskt bókaforlag tæki að sér útgáfuna en úr því varð ekki.

Sigfús dvaldi á Seyðisfirði í kringum 1920 og fékk lítilsháttar styrk úr bæjarsjóði í viðurkenningarskyni fyrir störf sín. En hann nægði ekki fyrir þörfum hans, enda var heilsan tekin að bila til erfiðisvinnu og hann lifði við þröngan kost. Endurminningar Sigfúsar eru varðveittar hjá Landsbókasafni með öðrum handritum hans. Þar skrifar hann meðal annars um þreytandi útgáfuleik við Odd Björnsson prentara. „Hneigðist nú hugsun hans meira að vísna og ljóða gerð er hann hugði sig lausan við safnið. Var hann undirniðri leiður á hinu tilgangs litla lífi, og orti löngum, til að reyna að gleyma umkomuleysinu.“

Upphafserindi kvæðisins „Margýgjar-söngur“ eftir Sigfús Sigfússon.

Upphafserindi kvæðisins „Margýgjar-söngur“ eftir Sigfús Sigfússon.

Að lokum stofnuðu nokkrir Austfirðingar félag um að koma þjóðsögunum á prent. Helsti hvatamaður þess var Benedikt Jónasson frá Eiðum sem var verslunarstjóri á Seyðisfirði. En ekki þótti ráðlegt að hefja útgáfuna fyrr en búið væri að kanna söluhorfur. Fyrirhuguð útgáfa var auglýst í ritinu Austurland í september árið 1920 og sumarið 1921 fór Sigfús um fjórðunginn til að safna áskrifendum. Ferðalagið var tímafrekt enda fór Sigfús mestan hluta leiðarinnar fótgangandi, þá kominn á sjötugsaldur. Leiðin lá frá Digranesi við Vopnafjörð suður að Heinabergsvötnum í Hornafirði. En erfiðið var þess virði, Sigfúsi var nær alls staðar vel tekið og áskrifendur urðu nær 1400.

Fyrsta bindið af þjóðsögunum var prentað hjá Prentsmiðju Austurlands á Seyðisfirði árið 1922. Útgefendur voru „Nokkrir Austfirðingar“ en á þeirra vegum komu aðeins aðeins út tvö bindi til viðbótar. Útgáfunni var þó haldið áfram með hléum. Næstu bindin (nr. 4 og 10) komu út á vegum Þorvaldar Bjarnasonar í Hafnarfirði en hin (nr. 5-9 og 11-16) hjá Víkingsútgáfunni í Reykjavík. Síðasta bindið kom út árið 1958 og tók 36 ár að koma öllu safninu á prent. Það voru því aðeins komin út fjögur bindi þegar Sigfús lést í Reykjavík 6. ágúst 1935.

Fáir gerðu sér grein fyrir því þrekvirki sem Sigfús vann með þjóðsagnasöfnun sinni, ýmsir töldu það jafnvel sérvisku og hjátrú og gerðu gys að honum. Þegar þjóðsögurnar komu fyrst út á prenti vöktu þær verðskuldaða athygli. Hlutu þær góða dóma ýmissa fræðimanna sem létu þess getið að verkið væri stórvirki, unnið af alþýðumanni í tómstundum og af litlum efnum.

Sigfús skipaði þjóðsögunum og sögnunum í 16 flokka, sem komu út í jafnmörgum bindum: Sögur um æðstu völdin; Vitranasögur; Draugasögur; Jarðbúasögur; Sæbúasögur; Náttúrusögur; Kreddusagnir; Kynngisögur; Örnefnasagnir; Afreksmannasögur; Afburðamannasögur; Útilegumannasögur; Æfintýri og dæmisögur; Kímnisögur; Rím-gaman; Ljóðþrautir.

Sýning um Sigfús Sigfússon og sagnaritun hans var opnuð í Safnahúsinu á Egilsstöðum 31. október 2015.

Heimildir

  • Eiríkur Eiríksson, „Sigfús Sigfússon frá Eyvindará“. Múlaþing, 6, 1971, s. 116-128.
  • Sigfús Sigfússon, Íslenzkar þjóðsögur og sagnir. 16 bindi. Ýmsir útgefendur, 1922-1958.
  • Sigfús Sigfússon, Íslenskar þjóðsögur og sagnir. 11 bindi. Reykjavík: Þjóðsaga, 1982-1993.
  • Sigfús Sigfússon, Úr ´Margýgjar-söng´. Eink 38-5.
  • „Æviþáttur af Sigfúsi Sigfússyni“. Lbs 2585 4to. Handrit.is.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga