Mynd að ofan: Rissteikning af Vestmannaeyjahöfn 1761 vegna tillagna um hafnarbætur þar til að auðvelda útgerð konungsbáta. Teikningin er eftir Brynjólf Brynjólfsson sem var um skeið settur sýslumaður í Vestmannaeyjum og stundaði lengi sjóróðra þar. Sjá bréf Magnúsar amtmanns Gíslasonar til rentukammers 23. september 1761 sem bréf Brynjólfs og teikning er lögð með. Ennfremur er hér álit Rybergs stórkaupmanns forstöðumanns konungsverslunar fyrri, konungsúrskurður o.fl. Rentukammerskjöl, Isl. Journ. B. nr. 1195. (4/17 – 1761).
Í Þjóðskjalasafni eru varðveittir uppdrættir af Vestmannaeyjum frá seinni hluta 18. aldar. Uppdrættirnir sýna hafnarsvæðið á Heimaey og eru góðar heimildir um höfnina, skipulag svæðisins og þróun byggðar. Á þessum elstu teikningum er skansinn og verslunarhúsin sem stóðu innan hans áberandi mannvirki.
Elstu heimildir um hugmyndina um byggingu virkis í Vestmannaeyjum eru frá upphafi 16. aldar. Í kjölfar átaka Dana, Englendinga og Þjóðverja um verslunarhafnir á Íslandi vildi Kristján II Danakonungur efla umboðsstjórn sína á landinu, og sendi hingað Sören Nordby sem höfuðsmann árið 1515. Eitt af verkefnum Nordbys var að reisa virki á Bessastöðum og í Vestmannaeyjum. Ekkert varð úr virkisgerðinni áður en hann var kallaður aftur til konungs tveimur árum síðar sökum stjórnmálavandræða í Danmörku. Það var svo ekki fyrr en árið 1586 að Friðrik II. Danakonungur boðaði, með bréfi þann 18. apríl 1586, Hans Holst skipstjóra sínum ,,at bygge et Blokhus paa et belejligt Sted ved Havnen paa Vespeno’e”. Af reikningum umboðsmanns konungs frá því ári má sjá að „skandters” hafa verið byggðir. Líklegt er að þarna hafi verið reistur fyrsti vísir að skansinum, varnargarður úr grjóti eða timbri. Skansinum var fyrst og fremst ætlað að verja konungsverslunina ágangi Englendinga sem hvorki virtu veiði- né verslunarbann. Verslunarhúsin stóðu innan garðsins. Í heimildum er skansinn nefndur Kornhólsskans þar sem hann stóð nálægt Kornhóli þar sem var mylla.
Vestmannaeyjar voru ein mikilvægasta fiskihöfn landsins og á róstursömum tímum var vissulega þörf á varnaraðgerðum. En það var ekki aðeins versluninni sem var ógnað af takmarkalausri skipaumferð sunnan við landið. Sjóræningjar lögðu einnig leið sína til eyjanna. Árið 1614 kom sjóræninginn James Gentelman ásamt félaga sínum, William Clark, til Vestmannaeyja þar sem þeir munu hafa farið um í nærri mánuð, rænt og ruplað og ógnað heimamönnum með hnífum og byssum. Sagan segir að þeir hafi meðal annars rænt kirkjuklukkunni úr Landakirkju. Þeir kumpánar voru handsamaðir í Englandi og hlutu makleg málagjöld og klukkan var endurheimt.
Skansinum virðist ekki hafa verið haldið við fram á 17. öld en þegar sjórán urðu tíðari á Atlantshafinu og sögur fóru að berast af hinum hræðilegu Tyrkjaránum var hafist handa við endurbyggingu hans. Lauritz Bagge, kaupmaður í Vestmannaeyjum mun hafa látið standa vakt um nætur og hreinsa gömlu fallbyssurnar frá því skansinn var fyrst reistur, þegar von var á Tyrkjunum. Það dugði skammt gegn áhlaupi ræningjanna þar sem þeir tóku land sunnan til á eynni en ekki í höfninni. Eins og þekkt er rændu Tyrkir um helmingi eyjarskeggja, 242 mönnum og drápu 36.
Eftir Tyrkjaránið kom berlega í ljós að varnir voru nauðsynlegar í Vestmannaeyjum. Ráðist var í viðgerðir á skansinum og danskur herþjálfari var fenginn til að hafa umsjón með landvörnum þaðan. Starf hans fól einkum í sér að skipuleggja vaktir á Helgafelli og að hafa gát á skipakomum. Hann átti einnig að stofna og þjálfa upp herlið heimamanna. Æfingar voru haldnar einu sinni í viku og voru allir byssufærir menn skyldaðir til þátttöku. Árið 1639 tók Jón Ólafsson Indíafari við stöðu byssuskyttu við Skansinn. Vestmannaeyingar héldu vökur á Helgafelli fram yfir árið 1700.
Helstu heimildir
- Islands Geografiske Beskrivelse. ÞÍ. Rentukammer 1928-11 D-D6 1-1.
- Björn Þorsteinsson. Íslandssaga til okkar daga. Reykjavík 1991.
- Íslenskur söguatlas 1. Frá öndverðu til 18. aldar. Reykjavík 1989.
- Vefurinn Heimaslóð; www.heimaslod.is.
Þjóðskjalasafn Íslands