Álasundshúsið á Akureyri

Kærleikur án takmarka – Álasundsgjöfin

Mynd að ofan: Húsin sem Álasundsbúar sendu Akureyringum 1906 voru upphaflega sett upp í Álasundi vegna brunans mikla þar árið 1904 og nú áttu þau á að þjóna fólki á Akureyri er misst hafði allt sitt í eldsvoðanum. Annað húsið var selt hafnarsjóði og stóð austan við Hótel Akureyri.

Í október 1906 brunnu fimm glæsileg verslunarhús við Strandgötu á Akureyri.  Bruninn var sá mesti sem þá hafði orðið í sögu landsins og mikil mildi að ekkert manntjón varð en a.m.k. 75 manns misstu þarna heimili sitt.

Tíðindin voru símuð út um allt land og til útlanda.  Hannes Hafstein skýrði konungi frá eldsvoðanum en tók það jafnframt fram að það væri ásetningur bæjarstjórnar Akureyrar að leita ekki samskota utan kaupstaðarins að svo stöddu.

Í desember kom skip til Akureyrar en um borð var efniviður í tvo skála, töluvert af húsbúnaði, eitt þúsund kíló af þakpappa og þrjú þúsund múrsteinar. Þetta var gjöf frá íbúum Álasunds til Akureyringa.

Stofnskjal styrktarsjóðs

Minna Álasundshúsið var aldrei reist en viðirnir voru slegnir hæstbjóðendum á uppboði, ásamt öðru sem Norðmennirnir höfðu sent s.s. diskum, bollum, hnífapörum, teppum, púða- og sængurverum, múrsteinum og þakpappa. Tekjurnar af uppboðinu og sölu hússins var stofnfé í ,,styrktar og verðlaunasjóð eldvarnarliðsins í Akureyrarkaupstað, er nefnist Gjafasjóður Álasundsbæjar.“

Árið 1904 brunnu meira en 800 hús í Álasundi og um 10 þúsund manns misstu heimili sitt. Landar þeirra og erlendar þjóðir höfðu veitt þeim hjálparhönd og sent gjafir og hjálpargögn en íbúar Álasunds fundu til ríkrar samkenndar með Akureyringum og voru fljótir að láta eitt og annað af hendi rakna.

Héraðsskjalasafnið á Akureyri