Mynd að ofan: Sigríður Tómasdóttir í hjúkrunarskóla í Danmörku 1925-1926.
Sigríður Þórhildur Tómasdóttir var fædd í Reykjavík 4. júlí 1894. Foreldrar hennar voru þau Sigríður Lydia Thejll (1877-1943) og Tómas Helgason héraðslæknir (1863-1904). Afi Sigríðar í föðurætt var Helgi Hálfdánarson og amma hennar var Þórhildur Tómasdóttir (1835-1923). Bróðir Tómasar var Jón Helgasson biskup sem bjó á Tjarnargötu 26 og mikill samgangur þar á milli. Alsystkini Sigríðar voru þau Helgi (1896-) læknir, hann kvæntist Kristínu Bjarnadóttur og börn þeirra voru: Tómas, Ragnhildur, Bjarni og Brynjólfur og Ásta Þórdís (1900-) síðar Flygering, giftist Sigurði Flygering og börn þeirra voru Sigríður, Einar og Anna. Hálfsystkini Sigríðar, sammæðra voru þau Erlendur og Sigrún, sem móðir hennar átti með seinni manni sínum Einari Erlendssyni arkitekt. Þau bjuggu í Skólastræti 5.
Þegar Sigríður var nýfædd var faðir hennar orðinn héraðslæknir í Vík Mýrdal og þegar Sigríður Lydia, móðir hennar, fór austur var Sigríður skilin eftir hjá ömmu sinni Þórhildi Tómasdóttur og ólst þar upp. Þórhildur og Sigríður bjuggu í húsi Álfheiðar Helgadóttur Briem að Tjarnargötu 24. Sigríður fór í Kvennaskólanum, lærði hannyrðir og hljóðfæraleik. Sigríður fór til Danmerkur og ætlaði að læra hjúkrun en gat ekki lokið því námi vegna veikinda.
Sigríður giftist Guðmundi Friðriki Guðmundssyni þjóni og átti með honum soninn Sigurð Þóri (fæddur 17. janúar 1934 og andaðist 26. desember 2012). Sigríður og Guðmundur slitu samvístir. Eftir það fór Sigríður til Borðeyrar við Hrútafjörð. Þar tók hún að sér heimili Lýðs Sæmundssonar vegna veikinda konu hans og giftist síðar Sæmundi Þórarni Lýðssyni bónda þar. Þau fluttu suður eftir 1940 á Kópavogsbraut 4 og seinna í Hlíðartún í Mosfellsbæ. Sigríður Þórhildur Tómasdóttir andaðist 9. maí 1990.
Sigurður Þórir kvæntist Þóru Svanþórsdóttur (fæddri 19. júní 1936).
Hildur Sigurðardóttir afhenti Borgarskjalasafni Reykjavíkur skjalasafn Sigríðar Þórhildar Tómasdóttur 21. apríl 2015.
Heimildir
- Morgunblaðið, 18. maí 1990, bls. 35.
- Rituð heimild frá Hildi Sigurðardóttur.
- Ljósmynd og skjal í safni Sigríðar Þórhildar Tómasdóttur, nr. E-555 á Borgarskjalasafni Reykjavíkur.
Borgarskjalasafn Reykjavíkur