Mynd úr safni M. Simsons, tekin á ísfirsku heimili í maí 1927

Ásýnd dauðans

Myndin að ofan er úr safni Martinus Simsons, tekin á ísfirsku heimili í maí 1927.

Á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar tíðkaðist bæði í Bandaríkjunum og Evrópu að fólk fengi ljósmyndara til að taka myndir af látnum ástvinum (Post-mortem photography). Þetta var gjarnan gert þegar ættingjar áttu enga ljósmynd af hinum látna og þá einkum þegar um börn var að ræða. Oftar en ekki voru ljósmyndir þessar með dýrmætustu eigum fjölskyldunnar og jafnvel það eina sem hún átti til minningar um þann látna.

Fram undir aldamótin 1900 voru líkin oftast mynduð í rúmi og tekin nærmynd af andlitinu. Seinna varð algengara að líkin væru mynduð í kistu og var myndavélinni þá stillt upp fjær en áður og sjónarhornið víkkað þannig að meira sást af kistunni. Þá leituðust ljósmyndarar við að sýna hinn látna líkt og hann væri sofandi frekar en að undirstrika að hann væri látinn. Annað sem einkennir þessar myndir eru blóm og kransar við kistuna, ofan í henni  eða á brjósti líksins.

Mynd úr safni M. Simsons sem sýnir húskveðju á ísfirsku heimili í ágúst 1934

Mynd úr safni Martinus Simsons sem sýnir húskveðju á ísfirsku heimili í ágúst 1934.

Þegar leið á 20. öldina fengu greftrunarsiðirnir, jarðarförin og erfidrykkjan, meira vægi  og urðu aðalviðfangsefni ljósmyndanna þegar fram liðu stundir. Um leið og myndavélar urðu almenningseign dró hins vegar úr eftirspurn eftir þessari þjónustu ljósmyndara. Smám saman breyttist líka viðhorfið til mynda af látnu fólki. Áður fyrr þótti dauðinn eðlilegur hluti af tilverunni og myndatökur af látnum voru viðurkennt fyrirbæri en nú á tímum þykir ekki við hæfi að sýna lík eða jarðarfararmyndir. Segir mannfræðingurinn Sigurjón Baldur Hafsteinsson að viðhorf til dauðans hafi „augljós áhrif á það hvað rætt er um í tengslum við hann og hvernig reynslu af honum er komið á framfæri. […] Óttinn við dauðann eða ásýnd hans er ein af ástæðum þess að ljósmyndir af látnum eru ekki settar með öðrum myndum.“

Á Ljósmyndasafni Ísafjarðar eru varðveittar margar myndir af látnum einstaklingum og þá aðallega í söfnum ljósmyndaranna Björns Pálssonar (1862-1916) og Martinusar Simsons (1886-1974). Elsta myndin er frá 1896 en sú yngsta frá 1943 og eru flestar myndirnar af börnum.

Héraðsskjalasafnið Ísafirði