Smalað á Skarðsströnd haustið 2015

Fjallskil – Leitir

Sauðkindin kemst yfirleitt það sem hún ætlar sér og lætur ekki merki jarða, hreppa eða héraða stöðva för sína. Samvinna við smalamennskur er nauðsynleg til að leitir gangi sem best og hraðast fyrir sig.

Fyrsta reglugerð um fjallskil í Dölum er frá 1809 “Reglugjörð fyri Dalasýslu um grenjaleitir, dýraveiðar og geldfjárrekstur á afrétt og dali.”  Þar eru ákvæði um fjármörk og fjallgöngur að hausti. Við þetta komust fjallskil í fastari skorður og urðu á ábyrgð hreppstjóra og hreppsnefnda. Fjallskil hafa verið á ábyrgð sveitarstjórna frá 1872.

Leitir eru aðlagaðar aðstæðum og eru því mismunandi milli bæja, hreppa og héraða.  Í Dölum eru í dag 7 fjallskiladeildir sem skipuleggja leitir, hver á sínu svæði. Þar er skipað niður dagsverkum og leitarsvæðum á bæi eftir fjárfjölda og gefinn út fjallskilaseðill. Fara skal að minnsta kosti þrjár leitir á hvert svæði; 1. leit, 2. leit og eftirleitir.

Eftirleitir í nóvember 2015

Eftirleitir í nóvember 2015.

Leitarstjóri stjórnar leit á ákveðnu leitarsvæði, þ.e. ber ábyrgð á að allir skili sínu, úrskurðar hvort menn uppfylli skilyrði um að vera fullgildir leitarmenn, stjórnar hvert hver smali fer og hvort yfir höfuð fært er á fjall. Samkvæmt fjallskilaseðlum Dalabyggðar 2015 eru 34 leitarstjórar á 42 skilgreindum leitarsvæðum. Einn þessara leitarstjóra er Valgerður Lárusdóttir í Brekku sem varð fyrst kvenna í Dölum leitarstjóri 1979 og er enn að 36 árum síðar.

Leitarsvæðin geta verið misstór og erfið yfirferðar. Í Dölum tekur það yfirleitt nokkra tíma að leita hvert svæði, undanskilið er Ljárskógafjall þar sem smalar gista eina nótt í leitarmannakofa. Lagt er af stað þegar sauðljóst er orðið, það er í birtingu. Í dag er farið um gangandi, á hestum og fjölbreyttum ökutækjum. En góður fjárhundur er gulls ígildi við smalamennskur.

Þrátt fyrir langa og erfiða daga þótti ævintýraljómi yfir því að verða fullgildur smali og skila sínu dagsverki, nokkurs konar manndómsvígsla.

Héraðsskjalasafn Dalasýslu