Síða úr einni dagbók Rannveigar

Jól á Grænlandi árið 1921

Rannveig Hansdóttir Líndal (1883-1955) lifði fremur óhefðbundnu lífi. Hún var fædd og uppalin í Blönduhlíð í Skagafirði. Rúmlega tvítug var hún farin að starfa við barnakennslu og tók kennslupróf árið 1909. Komin á fertugsaldur sölsaði hún um og gekk í lýðháskóla í Voss í Hörðalandi í Vestur-Noregi þar sem hún lærði m.a. garðyrkju og sérhæfði sig í handavinnukennslu.

Árið 1921 fékk Rannveig óvænt boð um að fara til Grænlands til þess að kenna heimamönnum „íslenska ullarvinnu.“ Grænlendingar hófu tilraunir við að endurvekja sauðfjárbúskap þar í landi í byrjun 20. aldar og nutu til þess stuðnings nýlendustjórnar Dana. Árið 1915 voru 170 kindur fluttar frá Íslandi til Grænlands af Lindemann Walsøe, athafnamanni sem gegndi forstjórastöðu fyrir sauðfjárræktunarstöð á vegum danskra stjórnvalda. Hann hafði ásamt landstjóra Grænlands farið þess á leit að við Búnaðarfélag Íslands að útvega kennara til að kenna Grænlendingum hefðbundna úrvinnslu á afurðum íslensks sauðfés. Sigurður Sigurðsson forseti Búnaðarfélagsins fór þess á leit við Rannveigu að hún tæki að sér þetta starf er þau hittust fyrir tilviljun er hún var í heimsókn í Reykjavík. Svo fór að Rannveig fór utan haustið 1921 og bjó og starfaði í Julianehaab (Qaqortoq) í Grænlandi um tveggja ára tímabil. Þar starfaði hún við að kenna úrvinnslu á sauðfjárafurðum. Þar að auki tók hún virkan þátt í félagslífi bæjarins.

Opna úr einni af dagbókum Rannveigar

Opna úr einni af dagbókum Rannveigar.

Bréfasafn Rannveigar og ýmsar dagbækur úr hennar fórum eru varðveitt á Héraðsskjalasafni Húnaþings vestra. Þar á meðal er að finna dagbók hennar úr Grænlandsförinni. Þar má finna lýsingar hennar á því helsta sem fyrir augu bar í mannlífi og náttúru Grænlands, og um leið á samskiptum nýlenduherra og innfæddra og því hugarfari sem í þeim speglast. Eins veita dagbækur hennar merkilega innsýn í hversdagslíf og hátíðahald, eins og eftirfarandi lýsingu á upplifun hennar á aðfangadegi jóla í Julianehaab árið 1921.

Héraðsskjalasafn Vestur-Húnavatnssýslu