Sæmundur Stefánsson úr Hvítársíðu.

Sæmundur Stefánsson úr Hvítársíðu

Einn af þeim mönnum, sem ólst upp við takmarkalausa erfiðleika var Sæmundur Stefánsson úr Hvítársíðu. Saga hans geymist í sjálfsævisögunni „Æfisaga og draumar“ sem kom út árið 1929, ásamt nokkrum gögnum, sem tengjast honum og varðveitt eru á Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar.

Sæmundur fæddist á Bjarnastöðum í Hvítársíðu þann 9. október árið 1859. Foreldrar hans voru ógift, fátæk vinnuhjú í Hvítársíðu, faðirinn ættaður úr Eyjafirði og móðirin frá Akranesi.  Þriggja nátta gamall var Sæmundur tekinn frá móður sinni og fluttur á móðurhreppinn, Akranes. Þar átti hann mjög slæma vist á bænum sem honum var komið á.  Varð það honum til happs, að maður nokkur kom á bæinn, sá ástandið og kærði það til hreppstjórans sem brást við og kom honum fyrir á betri stað. Snemma fór að bera á því heilsuleysi, sem Sæmundur bjó við alla ævi, sérstaklega þoldi hann  illa vosbúð, því þá komu á hann sár.

Rithönd Sæmundar

Rithönd Sæmundar.

Við 16 ára aldur var aftur komið að hreppaflutningi hjá Sæmundi, því vegna heilsuleysis gat hann ekki unnið fyrir sér. Var honum því komið fyrir á ýmsum bæjum í Hvítársíðu og vann þau verk, sem honum voru falin og hann gat unnið vegna heilsunnar.

Eitt skipti er hann var á ferð milli bæja, varð hann næstum því úti en bjargaðist m.a. vegna góðrar hjúkrunar sr. Magnúsar Andréssonar á Gilsbakka. Sæmundur vildi verða sjálfstæður og kaupa sér frelsi og stakk upp á því við sr. Magnús, sem svaraði því til, að ef hann ætti vísa vinnu í 52 vikur þá mætti hann það og eins yrði hreppsnefndin að samþykkja það, sem hún gerði með eins atkvæðis mun.

Óþekkt kona, Sæmundur Gunnarsson, Sæmundur Stefánsson og Sæmundur Jónsson. Sæmundur Gunnarsson og Sæmundur Jónsson voru báðir látnir heita í höfuðið á Sæmundi Stefánssyni

Óþekkt kona, Sæmundur Gunnarsson, Sæmundur Stefánsson og Sæmundur Jónsson. Sæmundur Gunnarsson og Sæmundur Jónsson voru báðir látnir heita í höfuðið á Sæmundi Stefánssyni.

Þá kom það tímabil í ævi Sæmundar sem hann kallaði „Frjálsa standið“ og var það hans besti tími í Borgarfirði að hans sögn. Aðalstarfi hans var að kemba ull og mala korn á bæjum og var hann vel liðinn af öllum. Eyjólfur Jóhannesson skáld í Hvammi orti eftirfarandi vísu um Sæmund;

Nú á sauð og nú á hest,
og nóg af kvennablíðu,
Sæmundur, sem manna mest
malar í Hvítársíðu.

Kom upp sá kvittur í sveitinni, að það væri smitandi holdsveiki sem væri að hrjá Sæmund og varð fólk hrætt við að smitast af honum. Varð það til þess, að erfitt varð fyrir Sæmund að fá vinnu. Gaf héraðslæknirinn honum tvo kosti, vera á einum bæ í sveitinni eða fara á Laugarnesspítalann í Reykjavík.

Sæmundur tók þá ákvörðun að fara á spítalann og síðar sagði hann, að hann hafi ekki séð eftir því vegna þess að þá hafi hann lært að skrifa og lesa. Sæmundur eignaðist marga góða vini, sérstaklega unga stúlku, Þórdísi að nafni og hennar fjölskyldu. Þrátt fyrir heilsuleysi alla tíð þá náði hann háum aldri og dó árið 1945, 85 ára gamall.

Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar