Fyrst eftir að land byggðist var aðeins þörf á því að hafa skipulagðar smalanir á heimalöndum en fljótlega, með þéttari byggð og auknum fjárfjölda hefur notkun á afréttum færst í aukana. Bújarðir voru mjög misjafnar að stærð og gróðurfari en sumar voru landlitlar og þóttu henta illa fyrir sauðfé meðan aðrar voru víðfeðmar og áttu mikil heiðalönd sem þóttu góð til beitar. Fljótlega hafa bændur stórra jarða því leyft bændum lítilla jarða að reka geldfé og fráfærulömb í heiðarlöndin sín gegn gjaldi og því að þeir myndu aðstoða við smölun um haustið.[1] Þannig hefur samnýting svæðanna inn til landsins smám saman aukist og í því falist hagræðing fyrir alla aðila. Landlitlir hafa getað fjölgað fénu og fengið það vænna til slátrunar en ella og eigendur heiðalandanna hafa hagnast á samstarfinu auk þess að fá aðstoð við að smala þessi víðfeðmu lönd.
Hrepparnir í Flóa og á Skeiðum eiga ekkert upprekstrarland til fjalla sem liggur að heimalöndunum. Þetta olli miklum vanda á sínum tíma en var leyst þannig að Flóa- og Skeiðamenn fengu sinn eigin afrétt í miðri tungunni á milli Hvítár og Þjórsár. Til að halda utan um afréttarmál hreppana var Afréttarmálafélag Flóa- og Skeiða stofnað og varðveitir Héraðsskjalasafn Árnesinga gögn félagsins. Á myndinni að ofan er sýnd opna úr bókinni. Upprekstur á afréttinn frá neðstu sveitum Flóans var um 60-70 km leið í gegnum marga hreppa með geldfé og fráfærulömb. Ferðin var mjög tímafrek og var rekið hvíldarlítið dag og nótt inn á afréttinn.
Mikil vinna er einnig lögð í smölun afréttarins á haustin. Lengsti afréttur landsins er undir og lengsta leit tekur tíu daga. Smala þarf afréttinn frá Arnarfelli við Hofsjökul og niður til efstu bæja í Gnúpverjahreppi, um 120 km leið í beinni loftlínu. Þá er ótalin leiðin sem bændur frá ströndinni s.s. Eyrarbakka og Stokkseyri þurftu að ríða til þess að komast á afréttinn en það gátu verið tvær til þrjár dagleiðir áður en hin eiginlega fjallferð hófst. Fjallferðir geta verið mjög krefjandi og erfiðar, sérstaklega fyrr á tímum þegar fjallmenn lágu í tjöldum og veður voru válynd, enda eru til heimildir um mannskaða í fjallferðum. Ljóst er að það sem bændur hafa verið tilbúnir til að gera fyrir vænni lömb og betri afkomu hefur verið takmarkalaust.
[1] Bragi Sigurjónsson, Göngur og réttir, 1, 13.
Héraðsskjalasafn Árnesinga