Ærin Inga Dóra með markið heilrifað hægra og stýft vinstra

Fjallskil – Mörk

Ekki hefur enn tekist að kenna sauðfé að þekkja merki jarða, hreppa eða héraða. Eyrnamörk hafa verið í notkun frá landnámi til að sanna eignarrétt og eru nauðsynleg þar sem fé af mörgum bæjum gengur saman.

Marka er getið í Grágás, Jónsbók og síðar lögum frá Alþingi. Í dag skal allt sauðfé vera markað og með lituðu plötumerki. Sumir bændur nota mörk til að auðkenna lömb til að auðvelda flokkun þeirra að hausti. Eru þá til dæmis tvílembingar og einlembingar markaðir með sitthvoru markinu.

Öll mörk hafa heiti, sem dæmi biti, fjöður, heilrifað, hvatt, stig og sýlt. Eyrnamörk skiptast í yfirmörk og undirmörk og geta ýmist verið að framan eða aftan á eyra. Soramark kallast groddalegt mark sem fer illa með eyra. Voru þau oft notuð á aðkeypt fé til endurmörkunar.

Algengt var að brennimerkja í horn sauðfjár, en í dag er það frekar undantekning en regla.

Marklesið

Marklesið.

Ekki er vitað til þess að notkun marka og útgáfa markaskráa sé nokkurs staðar með jafn skipulegum hætti og hér á landi. Elsta markaskrá sem vitað er um úr Dölum er handskrifuð af Skarðsströndinni frá 1809. Fyrsta prentaða markaskrá Dalasýslu er frá 1856. Markavörður heldur utan um mörk í hverju héraði. Markavörður Dalasýslu er Arndís Erla Ólafsdóttir í Ásgarði.

Í nýjustu markaskrá Dalasýslu frá 2012 eru skráð 719 eyrnamörk og 69 brennimörk. Eigendur marka eru  307, til samanburðar voru 686 íbúar í Dalabyggð í ársbyrjun 2012. Flestir eru skráðir fyrir einu marki, meðan aðrir eiga allt að 10 mörk. Ólöf Sigurðardóttir á Sámsstöðum er sá sauðfjárbóndi í Dölum sem lengst hefur verið skráð fyrir sama markinu, frá 1931.

Gott þótti að vera markglöggur og má segja að það hafi verið þjóðleg íþrótt að kunna heilu markaskrárnar utanað. Til að auðvelda fólki að læra fjölda marka skal á það bent að frá 2012 hafa öll mörk verið birt á vefnum www.landsmarkaskra.is. Einnig er kostur að vera ættfróður, því mörk ganga í erfðir.

Héraðsskjalasafn Dalamanna