Barði NK-120

Fyrsti skuttogari í eigu Íslendinga

Síldarvinnslan h.f. í Neskaupstað festi kaup á fyrsta skuttogaranum í eigu Íslendinga árið 1970.

Skipið var byggt úr stáli hjá Skipasmíðastöðinni Ateliers et Chantlers de la Manghe í Dieppe í Frakklandi 1967, 327,59 tonn að stærð, 249 tonn undir þilfari, 115,73 tonn nettó. Skipsið var 40,22 m. á lengd (43.20 m. mesta lengd), 8,92 m. á breidd, dýpt 5,84 m. Skipaskrárnúmer 1137. Kallmerki T.F.T.S.

Íslenskt þjóðernis- og skráningarskírteini fyrir Barða NK-120

Íslenskt þjóðernis- og skráningarskírteini fyrir Barða NK-120.

Frá því að skipið var byggt hafði það verið gert út frá hafnarborginni Le Rochell í Frakklandi, þar var það nefnt Mousson LR-5207.

Íslenskt þjóðernis- og skráningarskírteini fyrir Barða NK-120

Íslenskt þjóðernis- og skráningarskírteini fyrir Barða NK-120.

Samkvæmt kaupsamningi dagsettum þann 29. júlí 1970 og afsali dagsettu í október 1970 var skipið keypt til Neskaupstaðar. Kaupandi var Útgerð h.f. Síldarvinnslan í Neskaupstað. Þá er það nefnt Barði NK-120.

Barði NK-120 kom til Norðfjarðar í fyrsta sinn að morgni mánudagsins 14. desember 1970 og lagðist að bryggju laust fyrir hádegi. Eftir gagngerar endurbætur á skipinu hélt það til veiða fimmtudaginn 11. febrúar 1971. Að morgni miðvikudagsins 17. febrúar kom það til Neskaupstaðar að aflokinni fyrstu veiðiferð. Afli í þessum fyrsta túr var 40 tonn.

Þar með var brotið blað í útgerðarsögu Íslendinga og skuttogaraútgerð hafin.

Skipstjórar á Barða voru:

  • Magni Kristjánsson, 1970-1973.
  • Birgir Sigurðsson, 1973-1977.
  • Herbert Benjamínsson, 1977-1979.

Ekki voru allir sannfærðir um að skynsamlegt væri að hefja togaraútgerð frá Neskaupstað á ný. Þeir svartsýnu rifjuðu upp útgerðarsögu norðfirsku nýsköpunartogaranna, Goðaness og Egils rauða, ásamt sögu togarans Gerpis og töldu að erfitt yrði að gera út togara án hallareksturs og vandræða. Forsvarsmenn Síldarvinnslunnar voru hins vegar sannfærðir um réttmæti þess að hefja togaraútgerð á ný enda ætti skuttogaraútgerðin að byggja að ýmsu leyti á öðrum forsemdum en togaraútgerð fyrri tíma.
Skuttogaranum Barða var til dæmis fyrst og fremst ætlað að fiska fyrir heimamarkað og þá einkum fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar.

Úr leiðarbók Barða NK-120

Hér má sjá fyrstu færslu í leiðarbók Barða NK-120 er hann fór í fyrstu veiðiferð og er það fyrsta veiðiferð sem farin er á islenskum skuttogara.

Í fyrstu gekk erfiðlega að manna Barða vegna vantrúarinnar á togaraútgerð. Sjómenn vildu miklu frekar vera á bátum en á togurum. Fljótlega breyttist hins vegar viðhorfið og þegar togarinn hafði sannað sig urðu pláss á honum eftirsóknaverð. Þegar menn áttuðu sig á því að aðbúnaður, laun og vinnuaðstæður voru allt aðrar og betri á skuttogurunum en á gömlu síðutogurunum, breyttist viðhorfið til muna.

Alls voru gerðir út þrír skuttogarar á Íslandi þetta fyrsta ár skuttogaraútgerðar á Íslandi. Auk Barða NK-120 voru það togararnir Hólmatindur SU-220 er kom til Eskifjarðar 22. desember 1970 og Hegranes SK-2 er kom til Sauðárkróks 30. janúar 1971. Þessir þrír togarar voru allir keyptir notaðir frá Frakklandi. Barðinn og Hólmatindur voru systurskip og nánast alveg eins.

Svona kvaddi Barði NK-120 Norðfirðinga

Miðvikudaginn 24. nóvember 1979, var veður hvast af austri á Norðfirði. Laust fyrir hádegi var margt fólk saman komið á bæjarbryggjunni til að kveðja Barða NK-120, sem var að fara í söluferð til Englands og þaðan til Frakklands, en þangað hafði hann verið seldur. Laust fyrir klukkan 12 fór hann frá bæjarbryggjunni og sigldi inn fjörðinn fram með byggðinni og kvaddi með flauti.

Þegar hann var kominn inn fyrir frystihúsið stöðvaðist hann, þá hafði drepist á vélinni, og slanga farið í sundur á stýrinu. Var hann þar á reki og rak í átt að landi. Fylkir NK-102 var kallaður til og dró Barða að landi við bryggju frystihússins.
Á fimmta tímanum var allt komið í lag og hélt Barði aftur af stað og sigldi út fjörðinn, þá alfarinn frá Norðfirði eftir 9 fengsæl og góð reynsluár í sögu skuttogaratútgerðar á Íslandi til hagsbóta fyrir Norðfirðinga og alla aðra landsmenn.

Heimildir

  • Eftirlitsbók Barða NK-120, 1971-1979.
  • Leiðarbók Barða NK-120, 1971-1974.
  • Smári Geirsson Síldarvinnalan h.f. Svipmyndir úr hálfrar aldar sögu 1957-2007.
  • Smári Geirsson Norðfjörður saga útgerðar og fiskvinnslu.
  • Minnisbækur Guðmundar Sveinssonar.
  • Austurland vikublað 19. febrúar 1971.
  • Dagbók – skipakomubók Neskaupstaðarhafnar.

Héraðsskjalasafn Neskaupstaðar