Helgafellsspítali var milli Vesturlandsvegar og Þingvallavegar. Neðst á myndinni má sjá heitavatnsstokkinn sem var lagður frá Reykjum í Reykjahverfi að spítalanum. Gaman er að skoða legu Vesturlandsvegar á myndinni, en á þessum tíma var Köldukvíslarbrúin ekki komin og gamla brúin því í fullri notkun. Þó má sjá að bygging Köldukvíslarbrúar er hafin.
Á hernámsárunum var, í Mosfellssveit, rekinn einn fullkomnasti spítali Evrópu. Hann var kallaður Helgafell Hospital. Helgafellsspítali var á mótum Vesturlandsvegar og Þingvallavegar, á Ásunum norðan Helgafells. Spítalinn samanstóð af 163 bröggum og 10 litlum steinhúsum, þar af voru 108 stórir spítalaskálar af breskri gerð.
Spítalinn var nær fullbyggður um 1942. Í honum var rúm fyrir um 1000 sjúklinga og taldi starfsliðið um 700 manns. Talið var að hann ætti að taka við slösuðum hermönnum frá Evrópu, en í raun var hann aldrei að fullu nýttur í það hlutverk. Notkun hans varð fyrir setuliðið á Íslandi, en þess má geta að þegar liðsaflinn varð fjölmennastur voru um 10.000 hermenn í Mosfellssveit, nálægt 6000 hermenn í norðursveitinni og um 4000 hermenn í suðursveitinni. Til að bera saman fjöldann voru íbúar Mosfellssveitar 2. desember 1940 alls 492 talsins.
Spítalinn var hitaður upp með heitu vatni frá Reykjum í Reykjahverfi. Kolaofnar voru hins vegar hafðir til vara.
Heimild: Friðþór Eydal.
Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar