Helgafellsspítali var milli Vesturlandsvegar og Þingvallavegar

Helgafellsspítali – herspítalinn á Ásum

Helgafellsspítali var milli Vesturlandsvegar og Þingvallavegar. Neðst á myndinni má sjá heitavatnsstokkinn sem var lagður frá Reykjum í Reykjahverfi að spítalanum. Gaman er að skoða legu Vesturlandsvegar á myndinni, en á þessum tíma var Köldukvíslarbrúin ekki komin og gamla brúin því í fullri notkun. Þó má sjá að bygging Köldukvíslarbrúar er hafin.

Á hernámsárunum var, í Mosfellssveit, rekinn einn fullkomnasti spítali Evrópu. Hann var kallaður Helgafell Hospital.  Helgafellsspítali var á mótum Vesturlandsvegar og Þingvallavegar, á Ásunum norðan Helgafells. Spítalinn samanstóð af 163 bröggum og 10 litlum steinhúsum, þar af voru 108 stórir spítalaskálar af breskri gerð.

Úr sjúkrastofu á Helgafellsspítala

Úr sjúkrastofu á Helgafellsspítala. Bragginn er af breskri gerð með kvistgluggum. Sjá má hitaveiturörin fyrir ofan gluggana og kolaofninn sem hafður var til vara í miklum kuldum.

Marlene Dietrich heimsótti sjúklinga á Helgafellsspítala haustið 1944

Marlene Dietrich heimsótti sjúklinga á Helgafellsspítala haustið 1944.

Spítalinn var nær fullbyggður um 1942. Í honum var rúm fyrir um 1000 sjúklinga og taldi starfsliðið um 700 manns. Talið var að hann ætti að taka við slösuðum hermönnum frá Evrópu, en í raun var hann aldrei að fullu nýttur í það hlutverk. Notkun hans varð fyrir setuliðið á Íslandi, en þess má geta að þegar liðsaflinn varð fjölmennastur voru um 10.000 hermenn í Mosfellssveit, nálægt 6000 hermenn í norðursveitinni og um 4000 hermenn í suðursveitinni. Til að bera saman fjöldann voru íbúar Mosfellssveitar 2. desember 1940 alls 492 talsins.

Hermenn gera við hitaveitulögn Helgafellsspítala

Hermenn gera við hitaveitulögn Helgafellsspítala.

Spítalinn var hitaður upp með heitu vatni frá Reykjum í Reykjahverfi. Kolaofnar voru hins vegar hafðir til vara.

Við gerð hitaveitulagnarinnar til Helgafellsspítala

Við gerð hitaveitulagnarinnar til Helgafellsspítala. Eftir stríð nýtti bæjarráð Reykjavíkur forkaupsréttar á pípulögn spítalans fyrir Hitaveitu Reykjavíkur.

Heimild: Friðþór Eydal.

Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar