Páll Lýðsson í Litlu-Sandvík

Takmarkalaus afköst

Til eru menn sem virðast einfaldlega hafa fleiri klukkutíma í sólarhringnum heldur en annað fólk og afköst þeirra virðast vera takmarkalaus. Dæmi um slíka menn eru Páll Lýðsson í Litlu-Sandvík í Sandvíkurhreppi og Stefán Jasonarson í Vorsabæ í Gaulverjabæjarhreppi. Auk þess að vera bændur á blönduðu búi lungann úr sinni starfsæfi þá unnu þeir báðir mjög óeigingjarnt starf í þágu félagsmála auk annara starfa. Þess ber þó að geta að báðir voru þeir einstaklega vel giftir og áttu fjölskyldu sem gat séðum búið í fjarveru vegna félagsmálavafsturs. Skjalasöfn þeirra beggja eru varðveitt á Héraðsskjalasafni Árnesinga.

Páll Lýðsson fæddist í Litlu-Sandvík 7. október 1936. Páll var stundakennari í sögu og íslensku við Gagnfræðaskólann á Selfossi 1960-1966 og 1970-1973, stundakennari við Iðnskólann á Selfossi 1964-1972. Einnig kenndi hann á námskeiðum við Fræðslunet Suðurlands, m.a. um Kambsránið og nokkur fleiri er tengdust sögu héraðsins. Dómari og höfundur spurninga í Gettu betur á RÚV 1988 og 1989. Páll Lýðsson var oddviti Sandvíkurhrepps 1970-1998, sýslunefndarmaður fyrir Sandvíkurhrepp 1974-1988 og sat í Héraðsnefnd Árnesinga 1988-1998. Hreppstjóri Sandvíkurhrepps 1982-1998. Páll var deildarstjóri í Sandvíkurdeild Kaupfélags Árnesinga frá 1977 og félagskjörinn endurskoðandi Kaupfélags Árnesinga 1967-1983. Hann sat í fulltrúaráði Mjólkurbús Flóamanna 1972-1982, í stjórn Mjólkurbús Flóamanna 1981-2002 og í fulltrúaráði Mjólkursamsölunnar 1977-2002. Deildarstjóri í Sandvíkurdeild Sláturfélags Suðurlands 1978-1986, kjörinn í stjórn Sláturfélags Suðurlands 1983 og var stjórnarformaður 1987 til 2005. Stjórnarformaður Byggða- og listasafns Árnesinga 1968-1983, í stjórn Héraðsbókasafns Árnessýslu 1967-1979, í skólanefnd Héraðsskólans að Laugarvatni 1959-1983 og stjórnarformaður Héraðsskjalasafns Árnesinga 2002-2006. Hann var einnig stjórnarformaður Bæjar- og héraðsbókasafnsins á Selfossi 2002-2006. Páll sat í Húsafriðunarnefnd ríkisins 1974-1981 og í stjórn Landnáms ríkisins 1974-1983. Hann var formaður Kjördæmissambands Framsóknarflokksins í Suðurlandskjördæmi 1974-1976, í útgáfustjórn Héraðsfréttablaðsins Þjóðólfs um langt skeið og í miðstjórn Framsóknarflokksins 1967-1978. Hann var formaður Afréttarmálafélags Flóa og Skeiða frá 1982, í stjórn Veiðiréttarfélags Árnesinga um langt skeið og félagskjörinn endurskoðandi Ræktunarsambands Flóa og Skeiða frá 1977. Hann sat í fyrstu skólanefnd Fjölbrautaskóla Suðurlands 1983-1987, í skólastjórn Menntaskólans að Laugarvatni frá 1990 til 2000 og í skólanefnd Tónlistarskóla Árnesinga 1978-2002. Einnig í framkvæmdastjórn Brunavarna Árnessýslu frá stofnun þeirra 1975 til 1998 og í stjórn Rjómabúsins á Baugsstöðum frá 1971 til dánardags.

Árið 1999 fékk Páll NBC-prisen sem eru verðlaun Norrænu bændasamtakanna sem veitt eru bændum og dreifbýlisfólki á Norðurlöndum fyrir ritstörf og fleira. Heiðraður af Ungmennafélagi Selfoss fyrir fræðastörf 1976 og 1986, heiðursfélagi Sögufélags Árnesinga 2006, heiðursfélagi Búnaðarsambands Suðurlands 2008 og heiðraður af Landsambandi kúabænda 2008. Páll var afkastamikill rithöfundur meðfram búskap og ritað fjölda greina í tímarit og blöð. Fjallaði sérstaklega um sögu Árnesinga frá um 1700, einkum búskaparsögu 1700-1900 og félagsmálasögu sunnlenskra bænda frá aldamótunum 1900 til nútímans.

Stefán Jasonarson í Vorsabæ

Stefán Jasonarson í Vorsabæ.

Stefán Jasonarson fæddist í Vorsabæ í Gaulverjabæjarhreppi 19. september 1914. Hann tók mikinn þátt í félagsmálum sveitar sinnar og héraðs. Hann var formaður Ungmennafélagsins Samhygðar frá 1936-1964, að einu ári undanskildu. Formaður kirkjukórs Gaulverjabæjarkirkju var hann frá 1955-1985 og formaður áfengisvarnanefndar frá 1956-1984. Stefán var hreppsstjóri í Gaulverjabæjarhreppi frá 1963-1984. Hann sat í fulltrúaráði Mjólkurbús Flóamanna frá 1950-1989 og Mjólkursamsölunnar frá 1968-1989. Í stjórn Búnaðarsambands Suðurlands frá 1959-1987, þar af formaður frá 1969. Í Laugardælanefnd Búnaðarsambandsins frá 1969 og síðar í stjórn tilraunastarfsins á Stóra-Ármóti til 1988. Í stjórn Skógræktarfélags Árnesinga var Stefán frá 1966-1986. Stefán var formaður landsmóts ungmennafélaganna á Laugarvatni 1965 og í framkvæmdanefnd landbúnaðarsýningarinnar á Selfossi 1978. Hann sat í stjórn klúbbanna “Öruggur akstur” og vann mikið að umferðarmálum á þeirra vegum vítt og breitt um landið. Stefán var í framkvæmdanefnd heimildarkvikmyndarinnar “Í dagsins önn” frá 1950-1987. Hann var formaður stjórnar Varðveislufélags Rjómabús Baugsstaða en þar var opnað minjasafn 21. júní 1975. Hann var fréttaritari Ríkisútvarpsins frá 1958 og Sjónvarpsins frá stofnun þess, svo lengi sem aldur leyfði. Hann skrifaði auk þess fjölda greina í blöð og tímarit og flutti erindi í útvarp. Einnig skrifaði hann ævisögu sína “Alltaf glaðbeittur” sem út kom árið 1991. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1984 fyrir störf að félagsmálum.

Héraðsskjalasafn Árnesinga