Mynd að ofan. Frá vinstri: William Fr. Pálsson og Herbert W. Dowding í hlaðinu á Halldórsstöðum í Laxárdal um 1915-1920. Báðir sitja gæðinga búnir til veiða í Laxá.
Fyrstu skráðu lagaákvæðin í íslenskum rétti um veiði eru í Grágás. Þar kom fram meginreglan um einkaveiðirétt landeiganda í landi sínu en hún hljóðaði svo: „Hver maður á að veiða fugla og fiska í sínu landi“, sbr. Konungsbók II, bls. 122 og Staðarhólsbók, bls. 506. Einkaveiðirétti landeiganda voru þó nokkur takmörk sett. Honum var m.a. bannað að þverleggja ár eða þvergirða þær með öðrum hætti, nema hann ætti einn alla ána og þá varð hann í vissum tilvikum að þola veiði annarra manna í landi sínu. Þegar líða tók á 19. öld var farið að stunda laxveiði í meira mæli en áður. Deilur og málaferli tóku að spretta út af laxveiðum og ljóst varð að nauðsyn bæri til að sett yrði laxveiðilöggjöf sem væri fyllri en hin fábrotnu ákvæði Jónsbókar og svaraði betur breyttum viðhorfum á þessu sviði, m.a. um friðun.
Í Héraðsskjalasafni Þingeyinga er að finna skjalið HRP-73/1. Þetta er fundagerð fundar sem var haldin 1885 á Helgastöðum í Helgastaðahreppi. Fundinn sat nefnd sem var skipuð til að íhuga og segja álit sitt um takmörk þau, er sýslunefndir setji fyrir laxveiði í Laxá og ám þeim er renna í Laxá. Í nefndinni voru: Séra Benedikt Kristjánsson í Múla, séra Benedikt Kristjánsson á Grenjaðarstað, Sigtryggur Helgason bóndi á Hallbjarnarstöðum, Snorri Jónsson á Öndólfsstöðum og Þorgrímur Pétursson í Nesi.
Í niðurstöðu nefndarinnar segir m.a.:
Höfum vjér átt með vor til að ræða þetta málefni og er það einhuga skoðun vor allra að sýslunefndin hafi sett þau takmörk, sem heppilegust muni vera til þess, að hvorki sje gengið of nærri friðun laxins nje rjetti veiðieigenda.
Héraðsskjalasafn Þingeyinga